Tannleysi hefur veruleg áhrif á líf fólks. Það hefur neikvæð áhrif bæði á lífsgæði og sjálfsmynd.
Hefðbundin meðferð við tannleysi eru heilgómar, eða það sem við í daglegu tali köllum gervitennur. Það eru lausar tennur sem sitja á tannlausum gómum. Hægt er að fjarlægja þá úr munni til að þrífa. (mynd 1)
Gervitennur eru alls ekki úrelt meðferð við tannleysi en ekki hentar öllum að nota lausar gervitennur, t.d. vegna hreyfanleika þeirra við tal og tyggingu.
Tannplantar festir í bein eru nú orðin vel þekkt lausn til þess að aðstoða fólk við að festa gervitennur betur.
Í grunninn má skipta þess konar meðferðum í tvennt:
- Smellugómar – lausar tennur með smellum.
- Fastar brýr – fastar tennur í munni, skrúfaðar.
Smellugómur er laus gómur sem fær þó aukið hald frá smellum sem festar eru við tannplantana. Viðkomandi getur fjarlægt góminn úr munninum og sett upp sjálfur. Venjan er að koma fyrir tveimur smellum í neðri góm en 4 smellum í efri gómi. (Mynd 2 og 3)
Fastar brýr eru skrúfaðar fastar við tannplantana og eingöngu á höndum fagaðila að fjarlægja úr munni. (Mynd 4 og 5)
Hverjir eru kostir, ókostir og viðhaldsþörf?
Hvort sem um er að ræða smellugóma eða fastar brýr er mjög mikilvægt að halda tannplöntum og tönnum hreinum til að halda í heilbrigði, ferskleika og forðast bólgur. Stunda ætti reglulegt eftirlit hjá fagaðila eftir lok meðferðar.
Þar sem smellugómar eru lausir gómar, þá hentar ekki öllum að nota þá vegna hreyfanleika við tal og tyggingu. Smellugómar eru stærri umfangs miðað við fastar brýr og því festist matur í meiri mæli þar undir. Smellugómar kosta almennt minna en fastar brýr.
Fastar brýr hreyfast ekkert við tal og tyggingu. Þær eru mun umfangsminni en smellugómar. Þessar brýr hafa stundum verið kallaðar „all-on-4“. Þrif við fastar brýr er sambærilegt við eigin tennur sé gætt að réttri hönnun brúar og nákvæmrar tannplanta-ígræðslu. Fastar brýr eru kostnaðarsamari en smellugómar.
Almennt er viðhald meira með tannplanta-studdum tönnum miðað við hefðbundnar gervitennur. Ráðlagt er að endurnýja hefðbundnar gervitennur á u.þ.b. 5 ára fresti.
Nánari upplýsingar
Föstum brúm má skipta í frekari undirflokka eftir því hvaða efni eru notuð. Mismunandi efni hafa svo aftur mismunandi eiginleika, endingu, kostnað og viðhaldsþörf. All-on-4 er samheiti yfir fastar brýr á tannplanta, óháð efnisvali. Hugmyndin byggir á brúargerð á 4 tannplanta en komið hefur í ljós að stundum þarf fleiri tannplanta til og þess vegna hefur verið vísað til nafnsins „All-on-4+“ eða „All-on-X“.
Mismunandi aðstæður í munni bjóða upp á mismunandi möguleika sem metnir eru í samstarfi við fagaðila. Meðferðar-og kostnaðaráætlun þarf að sníða að hverjum og einum þar sem almenn heilsa, munnheilsa og væntingar eru mismunandi milli einstaklinga.
Hvað er rétt fyrir þig?
Fyrsta skrefið er að vita hvers þú óskar, hafirðu tapað öllum tönnum eða það stefni í þá áttina. Hefðbundnar gervitennur eru sannarlega lausn sem getur hentað þér vel. Sértu ekki tilbúin/n að hafa gervitennur, hver yrði draumalausnin þín? Viltu einungis fastar tennur? Eða, ertu tilbúin/n að sætta þig við lausan góm en telur lífsgæðaaukningu falda í því að fá aukinn stuðning af smellum?
Lykilatriði í ferlinu er að búið sé að ákveða tegund tannanna, þ.e. smellugóm eða fasta brú, áður en tannplantar eru græddir í beinið.
Meðferðarákvörðun þarf að fara fram með væntingar þínar í forgrunni en með dyggri aðstoð fagaðila með góða þekkingu á málefninu.
Höf: Erna Rún Einarsdóttir tannlæknir og lektor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands
Sérgrein: Tann-og munngervalækningar